En ef við viljum nú breyta til, hvað er þá gott að vita um ísgerð? Jú, til dæmis ræðst áferð íssins ekki bara af hráefninu sem notað er í hann, heldur líka af aðferðinni sem notuð er. Flestir kannast við það að stundum myndast ísnálar eða kristallar í heimagerðum ís og hann verður grófur og harður.


Ískristallarnir myndast þegar vökvinn í ísblöndunni hefur kólnað nógu mikið, þá skilur hann sig frá föstu efnunum og fer að mynda kristalla. Því feitari sem hráefnin í ísnum eru (t.d. rjómi og eggjarauður), þeim mun minni líkur eru á kristallamyndun, en annars er einkum tvennt sem getur dregið úr kristallamyndun; annars vegar að ísinn frjósi hratt og hins vegar að hann sé á hreyfingu eða að hrært sé í honum öðru hverju á meðan hann er að frjósa til að brjóta upp kristallana.


Ef þið viljið mjúkan ís sem ekkert þarf að hafa fyrir er því um að gera að nota eggjarauður og rjóma, og svo auðvitað sykur og einhver bragðefni ? kannski bara vanillu (helst ekta, þ.e. vanillustöng) eða þá súkkulaði, ber, ávaxtamauk eða annað sem hugurinn girnist. Þegar slíkur ís er gerður er nóg að þeyta saman eggjarauður og sykur, blanda bragðefnunum saman við (ef notað er bráðið súkkulaði er best að láta það kólna þar til það er næstum að fara að storkna og kæla svo eggjablönduna) og síðan er rjóminn þeyttur og blandað saman við. Blöndunni er svo hellt í form og síðan þarf ekki að huga að henni meir fyrr en að því kemur að borða ísinn.


En það eru ekki allir sem vilja svona ís, sumum finnst eggja- eða rjómabragðið of mikið eða vilja einfaldlega eitthvað léttara. Þá er hægt að nota heil egg í staðinn fyrir rauður og svo er hægt að nota rjómabland (mjólk og rjóma) eða jafnvel bara mjólk en þá er best að þeyta eggin og sykurinn í skál sem höfð er í vatnsbaði, þeyta svo sjóðheitu rjómablandi saman við smátt og smátt þar til blandan þykknar og kæla hana svo vel áður en hún er fryst. Í báðum tilvikum þarf að hræra í ísnum á meðan hann er að frjósa til að draga úr ísnálamyndun.


Helltu þá ísblöndunni í skál (gjarna málmskál) og settu í frysti. Taktu hana út eftir u.þ.b. 1 klst. og hrærðu rösklega í blöndunni, t.d. með gaffli. Endurtaktu þetta á hálftíma fresti þar til ísblandan er orðin svo þykk að ekki er lengur hægt að hræra í henni. Með þessari aðferð ætti að vera unnt að koma í veg fyrir kristallamyndun að mestu.


Best af öllu er auðvitað að nota ísvél sem hrærir í ísblöndunni á meðan hún er að frjósa. Þá er líka hægt að nota næstum hvaða hráefni sem er í ísinn og líka búa til krapís (sorbet).

Skrifstofa Nóatúns:

Skarfagarðar 2, 104 Reykjavík

Sími: 585-7000