Nánar um fyrirspurnina:

Andabringur í jólamatinn. Nægja mér ekki 1,5 kg handa 8 fullorðnum + þrem litlum börnum? Humar- og rækjukokkteill + heimabakaðar bollur í forrétt.

Bringurnar eru seldar frosnar. Þá er væntanlega best að láta þær þiðna hægt í ísskáp? Ég hef ekki eldað andabringur áður, aðeins borðað þær á veitingahúsum. Mér líst bara nokkuð vel á uppskrift Nóatúns m. appelsínusósu. Nóatún mælir með að kjötið sé rautt. Ég er alltaf með varúðarbremsuna á þegar ég elda fuglakjöt, en kanski er mér óhætt að slaka á henni!

Hvaða meðlæti myndirðu mæla með? Við erum kartöflufólk, og höfum alltaf Waldorf-salat á jólum. Kanski líka sætar kartöflur með engiferi? Hugmyndir vel þegnar. Ég kippi mér ekkert upp við að gera sjálf meðlæti, ss rauðkál eða rauðlaukschutney eða annað.

Fullt svar:

Þú náttúrlega þekkir matarlyst gestanna þinna betur en ég en ég mundi líklega bæta við einni bringu (300-400 g) bara til að vera alveg viss. Það gæti orðið dálítill afgangur en kaldar andabringur eru ansi hreint góðar að narta í ... Ekki þar fyrir, ég hugsa að 1,5 kg (4 bringur?) mundu alveg sleppa þegar er bæði góður forréttur og svo eftirréttur – það fer líka dálítið eftir meðlætinu.

Andabringur er best að láta þiðna í sólarhring í ísskáp en ef maður er seinn fyrir og hefur bara nokkra klukkutíma má setja þær í umbúðunum í skál með köldu vatni. Svo er best að þær fari ekki ískaldar á pönnuna þannig að þær mega gjarna standa í hálftíma við stofuhita fyrir eldun.

Andabringur eiga – finnst mér – alltaf að vera vel bleikar. Það þýðir alls ekki að þær séu blóðugar eða hálfhráar en ef þær eru hæfilega steiktar og á réttan hátt og látnar standa dálitla stund áður en þær eru skornar eru þær fallega bleikar í gegn. Það á ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því fremur en öðru rauðu kjöti. (Ég var líka með grein um andabringur í Fréttablaðinu 16. des., þú ættir að geta fundið hana á Netinu.)

Ýmislegt sætt eða súrsætt meðlæti fer vel með andabringum. Mér finnst brúnaðar kartöflur passa vel með andabringum og eins sætar kartöflur og ýmiss konar ofnbakað grænmeti (gulrætur, butternut-kúrbítur, nípur, rauðlaukur – e.t.v. kryddað með engifer, jafnvel svolitlum kanel, hugsanlega örlitlu hunangi). Waldorf-salat er mjög gott með og eins önnur eplasalöt, svo og ýmiss konar ávextir – soðin eða steikt epli, perur eða ferskjur, til dæmis. Heimasoðið rauðkál þykir ómissandi í minni fjölskyldu, a.m.k. á jólunum. Ég steikti um daginn kastaníusveppi upp úr svolítilli andafeiti (geymdu endilega fituna sem bráðnar af bringunum, hún er mjög góð til að steikja t.d. kartöflur) og hafði þá með og sumir gestanna sögðu að þetta væru bestu sveppir sem þeir hefðu fengið.

Skrifstofa Nóatúns:

Skarfagarðar 2, 104 Reykjavík

Sími: 585-7000